Hver er Kamilla?

Hæææ! Ég heiti Kamilla Ingibergsdóttir og er jógakennari og jóga nidra kennari, Reiki I og II heilari og hef stundað yoga og hugleiðslu um árabil. 

Í ársbyrjun 2017 hóf ég innflutning á kakóinu góða svo fleiri á Íslandi fái að njóta og held reglulega ýmsa viðburði þar sem aðaláherslan er á hugleiðslu fyrir byrjendur jafn sem lengra komna, djúpa slökun, öndunaræfingar og leiðir til að auka innra jafnvægi og frið en ég tek eftir auknum áhuga og þörf fyrir þannig stundir.  Ég býð upp á sérsniðna tíma fyrir einkahópa, vinnustaði og hvataferðir og skipulegg að auki jóga-, hugleiðslu- og kakóferðir til Gvatemala. Ég nota söngskálar, gong og ýmsa tónlist í mínu starfi en tónlist hefur alltaf verið mitt besta meðal. 
Ástæða þess ég stend í öllu þessu kakóstússi er sú að árið 2016 urðu kaflaskil í lífi mínu en þá stefndi ég í kulnun í starfi í annað skiptið á aðeins nokkrum árum. Ég fann ekki fyrir tilgangi í því sem ég starfaði við og var búin að tapa gleðinni á mörgum sviðum lífs míns, eitthvað sem ég hafði ekki upplifað áður. Eitthvað þurfti að breytast. Ég tók mér frí til að endurmeta allt og leiðin lá til Gvatemala. Síðan þá hafa ferðir mínar þangað næstum ekki stoppað en ég hef farið fjórum sinnum til kakólands til að kynna mér krafta kakóplöntunnar betur. Ég nota kakóið til að efla andlega og líkamlega heilsu, dýpka hugleiðslu og jógaiðkun en það hefur reynst mér dásamlegur hjálpari í gegnum ýmis verkefni í lífinu.

Áður en kakóið kom eins og stormsveipur inn í líf mitt hafði ég tekið mér ýmislegt fyrir hendur, meðal annars stundað háskólanám í heil átta ár en ég er Kaospilot sem er danskt nám í skapandi verkefnastjórnun, er með BA próf í mannfræði og fjölmiðlafræði og diplóma í hagnýtri fjölmiðlun. Ég vann í áratug í tónlistarbransanum sem kynningarstjóri Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar, verkefnastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og fyrir hljómsveitina Of Monsters and Men. Ég var einnig framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands og verkefnastjóri hjá Alþjóðahúsi. Öll þessi reynsla hefur síðan reynst mér ómetanleg í mínu starfi sem jógakennari, skipuleggjandi viðburða og ferða, og sem sjálfskipaður sendiherra kakóbaunarinnar :)

Hér eru nokkur orð frá góðri konu sem hefur notið kakósins eins mikið og ég:

“Að njóta þess að drekka kakóbolla og sækja kakóhugleiðslur hjá Kamillu hefur gefið mér ómetanleg augnablik inn í hversdaginn undanfarið ár, augnablik þar sem ég næ að tengjast líkama mínum, visku hans og innsæi á dýpri hátt. Ég finn hvernig kakóið hefur hjálpað mér að finna aukna ró og einbeitingu og hvernig ég er tengdari kjarna mínum í hversdeginum. Hvort sem það er í góðum hóp í kakóathöfn hjá Kamillu eða heima í góðu tómi færir kakóbollinn alltaf ákveðna helgiró inn í daginn, slíkri ró held ég að við þurfum meira og meira á að halda inn í hversdaginn sem einkennist af svo miklum hraða og spennu hjá mörgum í dag.”
Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir, doktor í heimspeki

Kynntu þér töfra kakósins og heilsaðu upp á hjartað þitt.