Notkun reykelsa

Reykelsi eru ekki bara notuð til að bæta ilm hýbýla. Reykur og reykelsi hafa í gegnum aldirnar verið notuð til að hreinsa og bæta orku í rýmum og orkulíkömum. Reykelsin sem eru til sölu hér eru mestmegnis notuð í þeim tilgangi.

Í aldanna rás hafa frumbyggjar Norður- og Suður-Ameríku notað hvíta salvíu til að hreinsa og heila en reykur hvítrar salvíu er talinn hreinsa rými af neikvæðri orku. Salvían hreinsar líka orkulíkama okkar og því gott að hreinsa okkur sjálf með henni eða fá einhvern til að gera það fyrir okkur. Það er gott að hreinsa fætur og hendur vel.

Leiðbeiningar þegar unnið er með salvíuvendi eða aðra vendi:

Kveiktu í einum enda og blástu mjúklega þegar kemur upp logi. Notaðu reykinn af vendinum til að hreinsa þig, aðrar manneskjur eða rými. Þú getur notað fjöður eða höndina til að beina reyknum í ákveðna átt og sjáðu fyrir þér hvernig hann hreinsar, blessar og kemur á jafnvægi. Þú getur látið glóðina í vendinum deyja út og slokkna að sjálfu sér. Stundum þarf að hreinsa meira og þá er reynsla okkar sú að vöndurinn brennur lengur og við leyfum honum að brenna eins lengi og hann þarf. Einnig er hægt að stinga honum í sand eða salt en varist að slökkva í honum með vatni.

Sedrusviður - Sedrustréð er helgasta tré frumbyggja Ameríku og notað til að hreinsa og blessa en reykur sedrusviðarins er sagður laða að góða orku, hækka tíðni og hreinsa neikvæða orku. Sedrusviðurinn klippir líka á orku fyrri eiganda í tengslum við hluti.

Palo Santo - Ilmurinn af Palo Santo, helgum við, er dásamlegur og talinn hreinsa neikvæða orku. Bursera graveolens tréð lifir í 40-90 ár. Þegar tréð deyr svo náttúrulega tekur við um 10 ára þroskaferli viðarins þar til hann fellur og getur þá sannanlega kallast Palo Santo.

Rósmarín – Jurtin hefur verið notuð til verndar og til að auka skýrleika.

Myrra - Myrra var ein af gjöfum vitringanna þriggja til Jesú og hefur verið notuð víða um heim í þúsundir ára til að auka fókus, léttleika og til að opna hjartað.

Breu - Breukvoðan kemur úr Almacega trénu úr Amazon regnskóginum sem hefur verið notuð af frumbyggjum Amazon til að hreinsa neikvæða orku, bjóða inn góða orku og fyrir vinnu í draumheimi.

Þetta eru bara nokkur dæmi um þær fjölmörgu jurtir, plöntur og tré sem hægt er að nýta til hreinsunar í gegnum reyk.

Prófaðu þig áfram með að nota reyk til að hreinsa rýmið þitt og lyfta orkunni í því. Þú munt finna mun.